Upp og niður

19. maí

Ég fór af stað um hálfsjö eftir frekar svefnlitla nótt.  Maðurinn sem sér um gististaðinn hann datt bara í það með sumum pílagrímunum og það var enginn friður - eða lítill.  Það var farið að birta af degi, smá úði en logn.  Ég gekk með konu frá Hollandi sem var mér samferða og við gengum saman í allan dag - góður félagsskapur.  Við gengum meðfram ströndinni og þetta var síðasti dagurinn sem við sjáum sjóinn á þessari göngu.  Margar fallegar litlar kirkjur á vegi okkar en allar læstar.  Við komum til Ribadeo rúmlega 12 og enn þurfti ég að ganga yfir "huge" langa brú með mjóum stíg - hún var 600m löng - ég hélt ég yrði ekki eldri.  Ég hitti Helenu í Ribadeo.  Það urðu heldur fagnaðarfundir og við fengum okkur allar gott að borða saman.  Helena er hætt að ganga og þá kvöddumst við því ég og sú Hollenska ætlum að ganga 7km út fyrir Ribadeo.  Þessi Hollenska kona heitir Margareta.  Það var gott að koma í albergið, það var gott að hitta Helenu og vita að allt væri í lagi og við gátum kvatt hvora aðra, það skiptir mestu máli.

"Við þiggjum með því að gefa" - Franz frá Assisi

Ástarkveðja heim frá konunni á leiðinni til Santiago

 

20. maí

Rúmir 190km eftir að lokamarkinu og ég á 10 daga eftir - get því dúllað mér ef svo vill til að ég verði löt.  Við vöknuðum kl hálfsjö, ein samloka í morgunmat og vatn, ekki alltaf fjölbreytt fæðið.  Þokusúld en hlýtt og logn.  Í dag gengum við í byrjun hrikalega mikið upp, allt frá 100m upp í 400m og alltaf að fara upp og niður.  Gangan lá eins og oft áður um fallegar sveitir og alls staðar voru bændur og búalið í heyskap.  Við gengum eins og oft á sléttum stígum og það er bara ansi erfitt til lengdar.  En inn á milli komu fallegir skógarstígar og það var æði.  

Um hádegi fór heldur að hitna og sólin skein sem aldrei fyrr.  Lítrarnir hurfu úr vatnsflöskunni og svitinn rann af pílagrímanum.  Sem betur fer gátum við gengið í skugga trjánna að hluta til.  Heilsuðum fólki sem var á vegi okkar, allir gefa okkur falleg bros.  Þegar við vorum að komast upp lengstu og erfiðustu brekkuna , alveg uppgefnar og kaffiþurfi, blasti við okkur flottasta auglýsingaskilti "ever".  Kaffi, kökur, nefndu það bara, hátt uppi í litlu þorpi og bara 400m ofar - þeir metrar voru ansi drjúgir.  Kaffi og nýbökuð spönsk sneið af jólaköku - aldrei smakkast betur - þetta bjargaði deginum hjá mér.  Við komum til Lourenza og þá vorum við búnar að ganga 20,5km.  Við ákváðum að halda áfram um 8km til Mondodeo og það var mikið upp en mun léttara en ég átti von á.  Og þegar við ætluðum að skrá okkur inn á albergið urðum við fyrst að fara á lögreglustöðina og gera grein fyrir okkur.  Enn og aftur er fólk hissa að sjá íslenskan pílagríma - gerist greinilega ekki á hverjum degi.  Sól úti og sól í hjarta konunnar.  28km í dag og pílagríminn dálítið sólbrennd en sæl og glöð eins og fyrri daginn.  

"Líf án kærleika er eins og ávaxtatré sem hvorki ber blóm né aldin"

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er nú gaman að heyra frá þér aftur Rúna mín, eftir sambandsleysið.  190 km. eftir VÁÁ, mikið er þetta spennandi. Frábært að þú þurfir ekki að vera í einhverju stressi síðustu dagana. Þú ert nú meiri dugnaðarforkurinn. Hlakka til að hitta þig næst. :-) Ein sem dundar nú bara við að fúaverja sólpalla :-) 

Guðrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 21.5.2016 kl. 19:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband