Góðvild á veginum

17. maí

Vaknaði snemma, ákvað að láta íbúann á hælnum eiga sig þar til ég kem í náttstað í kvöld.  Sólarlaust en hlýtt, Mario kvaddi mig - hann gengur heldur hraðar en ég laughing  Upp úr kl hálfátta hélt ég af stað með pokann minn á bakinu, staf í annarri hendinni en leiðsögubókina í hinni.  Létt ganga fyrstu kílómetrana en svo kom þetta upp og niður í þónokkra stund.  Ég sá engan pílagríma í langan tíma utan einu sinni í byrjun, svolítið öðruvísi en á Jakobsveginum.  

Ég hélt vel áfram og borðaði og drakk um leið og ég gekk, ekki að stoppa of oft.  Klukkan 11:55 að deginum kom ég til lítils sjávarbæjar sem heitir Luasca og kílómetrarnir tæpir 15. Ég var ein á göngunni í allan dag, frá hálf átta til hálf fimm, nema pílagrímarnir tveir í byrjun dags. Mest geng ég um sveitir og í gegnum lítil þorp.  Og oft eru veitingahús og verslanir lokaðar á daginn yfir heitasta tímann svo ef ég er nærri búð á kvöldin þá næ ég mér í nesti fyrir næsta dag.  

Núna er ég komin á afar fallegt hótel, Hótel el pinar, í æðislegu herbergi - 2ja manna á 22 evrur.  Þorpið eða bærinn heitir Villapedere og ég gekk rúma 28km í dag.  

"Það sem þú átt í vasanum er ekki mikilsvert - eingöngu það sem þú átt í hjartanu"

Sæli pílagríminn sem gengur einn þessa dagana.

Kær kveðja til ykkar allra.

 

18. maí

Sólarlaust þegar ég vakna.  Ætlaði að fá mér morgunmat um leið og ég yfirgaf bæinn en þá voru stafirnir mínir læstir inni í afgreiðslunni á hótelinu.  Ég fór því á veitingahúsið, fékk mér að borða og fór til baka á hótelið eftir það.  Fyrir utan herbergisdyrnar var annar stafurinn kominn en hinn sem ég hafði lagt saman (var sem sagt stuttur) var enn læstur inni og enginn við.  Jæja, einn stafur hefur dugað hingað til svo ég skrifaði bréf til fólksins á hótelinu að ef einhver frá þeim ætti leið um La Caridad þar sem ég mun gista næst yrði ég þakklát ef sá hinn sami henti stafnum inn á albergið.  

Mér gekk vel að ganga í dag og ég las leiðsögubókina mína algerlega út í gegn alla leiðina - þetta er það sem við íslendingar gerum svo lítið af, lesum ekki nógu vel leiðbeiningar og þá lendum við í tómu tjóni.  Mér gekk sem sagt mjög vel, það var fallegt veður og ég var ein allan daginn allt þar til ég kom til La Caridad og þá var ég fyrsti pílagríminn í hús en svo fóru þeir að koma inn, einn og einn í einu.  Ég skrapp í búðina til að versla mér svolítið að borða og þegar ég kom til baka þá lá hinn stafurinn minn á rúminu mínu - ótrúlegt hvað fólk er hjálpsamt hér á veginum.  

La Caridad er á milli Cadavedo og Ribadeo.  Aðalfréttin í dag:  íbúinn á fætinum mínum er að gefast upp.  Ég fann ekkert til í dag og þannig held ég að Hvítárbakkaþrjóskan mín muni sigra að lokum.  Kílómetrarnir í dag hjá mér urðu tæpir nítján, léttur dagur, ekki mikið um hækkanir og ég ákvað að taka stuttan dag, fallegt veður og margir litlir bæir og þorp sem ég fór í gegnum.  Heyskapur er byrjaður um allt og stór og falleg kartöflugrös brostu við mér.  Það er eitt sem ég á bágt með að venjast hér á Spáni þegar ég er að ganga um veginn og það eru geltandi hundarnir við húsin sem ég geng framhjá.  Þeir verða alveg brjálaðir, stórir og smáir, en sem betur fer eru þeir annaðhvort bundnir eða innan girðingar - svona er Spánn í dag.  

"Láttu hvorki fólk né atvik svipta þig kjarki og lífskrafti"

Rúnan sæl á veginum, orðin svolítið sólbrennd en kát og glöð.  Kær kveðja heim. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Rúnan mín, gott að allt gengur vel. Ég vona að göngustafurinn sé kominn í þína hendi að nýju.

Þú ert frábær:)

Kveðja, Sveinbjörg

Sveinbjörg Pálsdóttir (IP-tala skráð) 21.5.2016 kl. 18:50

2 identicon

" þetta er það sem við íslendingar gerum svo lítið af, lesum ekki nógu vel leiðbeiningar og þá lendum við í tómu tjóni." hihihi flissaði smá þegar ég las þetta og hugsaði til Jörundarfellsgöngu okkar um árið <3 tongue-out

Knús, Harpa

Harpa Björt (IP-tala skráð) 22.5.2016 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband