Að leiðarlokum

27. maí

Jæja, síðasti dagurinn göngu rann upp og hvort sem mér líkaði það betur eða verr var kveikt ljós hjá einum kl 5 sem ætlaði sér ekki að missa af neinu.  Upp úr því hófst hinn mesti hamagangur og ég - pílagríminn frá Íslandi - horfði á, var ekki alveg að ná þessu.    Upp úr kl 6 fór ég á fætur, þá var þetta heldur að róast sem hentar mér vel enda þekkt fyrir rólegheit yfirleitt laughing  Tók mér góðan tíma í morgunverð og þegar dagsbirtan lét sjá sig röltum við tvær, ég og Margrete hin hollenska, af stað.  Það var fallegt veður, dálítið svalt í fyrstu, en svo kom sú gula í allri sinni fegurð og umvafði okkur.  Í dag, eins og í gær, gekk ég um kunnar slóðir en ýmislegt hefur breyst á þessum 6 árum eins og gengur.  Það var gott að ganga í dag vitandi að næstu dagar yrðu svolítið kærulausari og rólegri.  

Þegar ég kom að borgarmörkum og ég sá styttur og önnur kennileiti sem þar voru þá láku tárin niður kinnarnar.  Það er ekki hægt að lýsa þessari upplifun.  Hún er ótrúlega sterk en kemur líka á óvart.  Eitthvað gerist sem ég ræð bara ekki við.  

Við Margarete röltum inn í borgina og niður á gististaðinn hennar sem heitir Seminar Menor.  Þetta er stórt klaustur en þar gisti ég árið 2010 - gaman að koma þar aftur.  Eftir innritun hennar stormuðum við niður að Dómkirkjunni og á skrifstofuna til að fá aflátsbréf - það má ekki klikka, verð að hafa nokkurn veginn hreina samvisku þegar ég kem heim.  Þar þurftum við að bíða í biðröð í 2 tíma, mun erfiðara að standa upp á endann en að ganga smile 

Eftir þetta var komið að því að nærast, ekki vanþörf á, ótrúlega gott að sitja í rólegheitum og borða.  Margarete vildi endilega að ganga með mér að hótelinu því núna verða bara flottheit á minni, ein í herbergi, engar hrotur nema þá kannski hjá mér, veit það ekki, verð sofandi.  Og á hurðinni utanverðri er "do not disturb"!!

Yndislegt herbergi uppi á 4 hæð á fallegu hóteli og stutt í miðbæinn, 10-15 mínútna gangur, munar nú lítið um það þessari konu.  Nú er þessi 585km ganga að baki, góð - erfið - skemmtileg og öðruvísi að flestu leyti en sú fyrri.  Enda er ekki hægt að bera þær saman og á ekki að gera það.  En eitt er samt alveg eins í þessum göngum báðum.  "Ferðafélaginn" minn stóð við hlið mér allan tímann, studdi mig og styrkti og gaf mér kjark og bjartsýni til þess að halda áfram.  Takk elsku "ferðafélaginn" minn fyrir að umvefja mig elsku þinni alltaf.  Takk elsku þið öll sem hafið fylgt mér á þessum dögum.  Það hefur verið gott að hafa ykkur með í för og ótrúlega dýrmætt.  Síðast en ekki síst, takk elsku börnin mín og fjölskyldur fyrir allt sem þið hafið gefið mér og gert fyrir mig.  Sjáumst í næstu viku.

Pílagríminn sem er dálítið meir í dag.

 

"Vertu óhrædd/ur við að fara út á ystu greinina - þar bíður ávöxturinn"

"Litlir dropar á mig falla - kominn er tími heimferðar"

"Þá endirinn er góður er allt gott"

   


Með mömmu í hjartanu

26. maí

Svaf illa í nótt, 38 saman í salnum, kallarnir hrutu sumir hverjir eins og hæstu mótorbátar á milli þess sem þeir spókuðu sig um á lærunum og þeim leiddist það ekkert.  Í dag vorum við 4 sem fylgdumst að, ég, sú hollenska og þjóðverjarnir tveir.  Ekki kom dropi úr lofti eins og búið var að spá heldur skein sólin, smá þokuslæðingur í byrjun.  Í dag gengum við 20km og nú er ég komin á Jakobsveginn og kannast við ýmislegt frá þeirri göngunni minni.  Nú eru pílagrímarnir eins og mý á mykjuskán, allar stærðir og gerðir frá ýmsum löndum og bakpokarnir misjafnir, litlir, stórir, gamlir og nýjir.  

Gangan í dag var góð og vorum við komin í albergið í bænum Pedrouzo kl 11:20 en biðum til 12 - þá var opnað.  Kellan í efri koju og ekkert erfitt að skella sér í rúmið og það er gott að hvílast.  Jæja, á morgun lýkur þessu brölti mínu.  Enn einn draumurinn sem mér hefur verið gefinn að láta rætast.  Þessi ganga er öðruvísi.  Ég gekk hana og klára hana vonandi á morgun og tileinka hana mömmunni minni.  Hún hefur verið mér ofarlega í huga á göngunni.  Það var gott að hafa hana með í hjartanu og ég er óendanlega þakklát henni.  

Það eru 20km eftir og á morgun eða hinn kemur síðasta færslan.  Þangað til hafið það gott og gleðjist yfir því sem gott er.

Pílagríminn, pínu meyr í dag.

"Hamingjan er - að gefa öðrum"

 


Gaman í stritinu

25. maí

Ég fékk mér gistingu í prívat albergi síðastliðna nótt.  Það er heldur dýrara en aðbúnaður betri.  Ég svaf vel og var farin út úr húsi korter fyrir sjö.  Þá var dagur orðinn næstum bjartur.  Ég gekk ein í dag, 20km.  Ég borðaði og drakk á meðan ég gekk því það gekk á með heljarinnar rigningu og ég vildi komast sem fyrst í hús.  Rigningin stóð hressilega yfir í um korter tvisvar sinnum en áður en ég vissi af var alveg hætt að rigna.  Og eins og oft áður lá leiðin um sveitir og lítil þorp inn á milli.  Ég heyrði í mjaltarvélum hjá sumum bæjum sem ég gekk hjá og annarsstaðar var verið að koma kusunum í hús. Ég kom í bæinn Arzua um klukkan hálftólf eftir tæpa 5 tíma.  

Margt fór um hugann á göngunni og mér leið mjög vel allan tímann.  Þegar ég kom að alberginu var einn kominn í biðröð og ekki opnað fyrr en eitt svo nú fór pílagrími númer 2 á barinn á móti og fékk sér kaffi og beið sallaróleg.  Og hver kemur þá þar, rétt einu sinni enn, nema Edward - hinn hjólandi englishman.  Ég hafði vinkað honum þegar hann fór hjólandi fram úr mér en einhver hliðarspor hefur hann tekið wink 

Nú er ég komin í hvíld, búin að borða og hafa gaman með þjóðverjunum tveimur sem hafa gengið í hálfgerðu samfloti, Eðvard og Hans en hann er 78 ára - ótrúlegur - og svo var sú hollenska líka með okkur.  Nú eru 39km eftir til Santiago, þar verð ég á föstudag ef Guð lofar.  Allt að gerast og ég orðin rosalega spennt.  Knús og hlý faðmlög í huga sendi ég ykkur.     

"Hugsaðu um alla fegurðina sem er enn í kringum þig og vertu hamingjusöm/samur"

 


Hugur leitar heim

24. maí

Í morgun var tilbúinn morgunmaturinn þegar ég kom á fætur kl hálfsjö.  Svaf vel í alla nótt og endurnærð eftir þennan fína morgunmat.  Ég lagði í hann upp úr sjö og í fyrstu gengum við Margareta saman og það fór að rigna á okkur kl hálftíu.  Nú kom ponsjóið að góðum notum.  Klukkan 9:30 stoppaði Margarete til að fá sér kaffi en ég ákvað að halda áfram.  Rigningin hætti eftir klukkutíma og gekk ég ein það sem eftir lifði göngunnar til Sobrato dos Monxes, 23km í dag.  Það var gott að vera ein í dag og ég finn að nú þarf ég að vera sem mest ein á göngunni því mér finnst það gott eftir að hafa gengið með öðrum í marga daga.  Svo hitti ég alltaf fullt af fólki í alberginu í lok dags.  

Í dag komst ég loksins á hæsta punkt norðurleiðarinnar, 710m, en ekki veit ég hve oft ég hef komist nærri þessari hæð en alltaf þurft að fara niður aftur og upp, áður en ég gat klárað þetta í dag loksins - rosalega glöð að vera búin að ná hæsta punkti.  Næstu dagar eiga að vera léttari, enda ekki margir eftir.  Það er pínu íslenskt landslag hjá mér í dag, fyrir utan trén.  Malarstígar, smá klettar og mishæðótt - bara æðislegt.  Síðan ég kom hingað í albergið er búið að rigna rosalega og á víst að gera næstu daga.  En ég ætla ekki að kvarta yfir rigningunni, ég er búin að vera ótrúlega heppin, alltaf gott veður hjá mér, hlýtt og logn.  

Eftir minni bestu vitund á ég eftir 61km - íííhaaaa - þetta er að takast en ég ætla ekki að fagna fyrr en ég stend á torginu í Santiago laughing

Ég veit að það verður gott þegar þetta er búið en best verður að koma heim.  Ég er yfir mig spennt því krakkarnir mínir hafa verið að bardúsa í íbúðinni minni, alltaf góð við mömmuna sína kiss

Jæja það er komið að lokum á þessari færslu, góða nótt þið sem þetta lesið.

Pílagríminn í kojunni.

"Tíminn er alltaf nægur þeim sem nota hann"


Komin undir 90km markið

23. maí

Í dag gekk ég 34,2km.  Fór á fætur kl 06:00 því þá voru pílagrímar farnir að tygja sig til ferðar og eins gott að gera slíkt hið sama.  Við lögðum í hann kl hálfsjö því það var langur dagur framundan.  Fallegur þokukenndur morgunn og æðislega fallegt að sjá sólina koma upp í gegnum þokuna.  Það fór að létta til um ellefuleytið.  Gangan spannaði allar gerðir af göngustígum en skógarstígarnir voru bestir í dag.  Trén umvefja pílagríma og þá er gott að hverfa inn í hugann og gleyma lúnum fótum, svitablautum fötum og hári.  

Í dag hitti ég tvo þjóðverja sem hafa verið að ganga! með mér! undanfarið og svo gekk Díana, ung stelpa frá Ástralíu, með okkur Margaritu.  Við fengum okkur kaffi og sæta köku um hádegið, merkilegt hvað allt er eitthvað svo gott á veginum.  Nú er ég komin til Miraz, alveg hreint ótrúlega fallegt albergi sem er rekið af samtökum sem heita The Confraternity of Saint James.  Hér vinna sjálfboðaliðar í tvær vikur í senn og núna eru hér 3 bretar sem leiddu okkur um allt húsið.  Hér er greiðslan fyrir gistinguna frjáls, allt til alls, ýmis matvara sem allir mega ganga í, fallegur garður þar sem ég sit núna í stuttbuxum og bol, 27 stiga hiti laughing

Fuglarnir tísta og syngja, blómin brosa og ég bara elska þetta allt saman.  Er fljót að gleyma blöðrunni sem var að ergja mig um daginn og upp og niður göngunum þegar sturtan og næringin er yfirstaðin.  Þetta hefur verið erfitt en ótrúlega gaman og að fá bros frá eldra fólkinu sem ég mæti og góðar óskir það gerir þetta allt þess virði.  Og á kvöldin er yndislegt að lesa kveðjurnar að heiman, þær eru bestar.  Kær kveðja til ykkar elskurnar, pílagríminn sem er kominn undir 90km markið.

"Trú er að treysta því sem þú getur ekki séð og laun þess trausts er að sjá það sem þú trúir"

Elska ykkur, Rúnan sæl og sátt 


Að njóta

22. maí

Síðastliðna nótt hellirigndi og ekki var laust við að smá kvíði væri innanbrjósts hjá pílagríma en nei kl hálfsjö þegar ég fór á fætur var blautt, vindur og ekta íslenskt veður og enn er mér gefinn þurr dagur þó blási.  Fékk mér að borða, flott á því í dag, jógúrt, te og samloka sem ég bjó mér til í gær.  Rúmlega sjö lögðum við Margarete í hann og í dag gengum við eftir aðalvegi alla leið til Vilalba, 18km rúma.  Að ganga eftir veginum var gert að yfirlögðu ráði, við vissum að eftir rigninguna væri leiðin okkar blaut og drulla á skógarstígum.  Stundum verð ég að vera skynsöm, og þetta var eitt af þeim skiptum.  Það var samt fallegt umhverfið á leiðinni, skógar, falleg hús, blóm og skýhnoðrar á bláum himni, fuglasöngur um allt í trjánum.  Þegar við komum inn í bæinn stoppaði ungur maður hjá okkur og lét okkur hafa upplýsingar um albergið sem við erum nú á, fín koja, sturtur, allt svo hreint og fallegt, óhreini þvotturinn tekinn og settur í þvottavél og þurrkara, kostar 3,50 evrur, allt gert fyrir mig.  "Já" hugsaði ég, ég er í fríi og á að hafa það gott.

Við fórum út að borða, kjúkling og franskar og heljarinnar salat.  Nú tek ég því rólega það sem eftir lifir dags.  Ég er að gera mér vonir um að koma til Santiago 28. maí.  Það væri æði að eiga einn aukadag, finna mér góðan næturstað og rölta svo um daginn eftir en 29. maí á ég, kellingin sjálf, bókað herbergi á hóteli - jemundur minn hvað ég hlakka til laughing laughing laughing

Takk fyrir allar góðu kveðjurnar og hlýju orðin, þau ylja mér og hvetja mig áfram.  Hlakka til að sjá ykkur eftir nokkra daga.

Pílagríminn sem nú er kominn með smá spennu í magann.

"Ekki gleyma því að jörðin þráir að finna fyrir berum fótum þínum og vindinn langar að leika um hár þitt"


Styttist verulega í annan endann

21. maí

Fyrst ætla ég að senda strákunum mínum, Hauki og Elíasi, innilegar hamingjuóskir með daginn.  Þeir eiga báðir afmæli í dag og mamma og amma hugsar fallega til þeirra.  Til hamingju elsku strákarnir mínir.  Í dag gengum við 17km og þeir voru einhverjir þeir erfiðustu á göngunni.  Allt upp í móti, villtumst aðeins af leið, hefðum greinilega átt að ganga meira upp laughing  Sveit og aftur sveit, engir veitingastaðir alla leiðina, bara brosandi bændur og geltandi hundar, lítið um sól en hlýtt og þegar komið var upp í hæstu hæðir var gott að finna hlýjan vindinn koma í andlitið.  Eins og fyrri daginn þegar ég er að ganga svona mikið upp þá lekur af mér svitinn, vatnið rennur úr flöskunum og sjaldan er eins gott að koma á toppinn og eftir erfiða göngu smile 

Ég sé ekki marga pílagríma sem hófu göngu um leið og ég en ef til vill verður það þegar ég kem til Santiago.  Í dag sá ég skilti þar sem á stóð 144,584 til Santiago - nú er þetta heldur betur orðið stutt í annan endann.  Núna erum við í litlum bæ sem heitir Gontán. Og í dag var hér líf og fjör.  Við vorum fyrstu pílagrímar í bæinn og fólk heilsaði okkur með hlýjum og fallegum brosandi andlitum.   Eldri kallarnir gáfu sig á tal við okkur og það var gaman að sjá hversu misfallega tenntir þeir voru og alls ófeimnir við að brosa út að eyrum til okkar.  Albergið hér er hreint og fallegt og öll rúm frátekin.  Það fór að rigna eftir að við komum svo nú höldum við okkur inni og hvílum okkur fyrir næsta dag.  Bestu kveðjur til ykkar allra héðan frá norður Spáni,

Rúna farin að hlakka pínulítið mikið til að koma heim

"Lífið er perluband augnablika - njóttu þeirra"


Upp og niður

19. maí

Ég fór af stað um hálfsjö eftir frekar svefnlitla nótt.  Maðurinn sem sér um gististaðinn hann datt bara í það með sumum pílagrímunum og það var enginn friður - eða lítill.  Það var farið að birta af degi, smá úði en logn.  Ég gekk með konu frá Hollandi sem var mér samferða og við gengum saman í allan dag - góður félagsskapur.  Við gengum meðfram ströndinni og þetta var síðasti dagurinn sem við sjáum sjóinn á þessari göngu.  Margar fallegar litlar kirkjur á vegi okkar en allar læstar.  Við komum til Ribadeo rúmlega 12 og enn þurfti ég að ganga yfir "huge" langa brú með mjóum stíg - hún var 600m löng - ég hélt ég yrði ekki eldri.  Ég hitti Helenu í Ribadeo.  Það urðu heldur fagnaðarfundir og við fengum okkur allar gott að borða saman.  Helena er hætt að ganga og þá kvöddumst við því ég og sú Hollenska ætlum að ganga 7km út fyrir Ribadeo.  Þessi Hollenska kona heitir Margareta.  Það var gott að koma í albergið, það var gott að hitta Helenu og vita að allt væri í lagi og við gátum kvatt hvora aðra, það skiptir mestu máli.

"Við þiggjum með því að gefa" - Franz frá Assisi

Ástarkveðja heim frá konunni á leiðinni til Santiago

 

20. maí

Rúmir 190km eftir að lokamarkinu og ég á 10 daga eftir - get því dúllað mér ef svo vill til að ég verði löt.  Við vöknuðum kl hálfsjö, ein samloka í morgunmat og vatn, ekki alltaf fjölbreytt fæðið.  Þokusúld en hlýtt og logn.  Í dag gengum við í byrjun hrikalega mikið upp, allt frá 100m upp í 400m og alltaf að fara upp og niður.  Gangan lá eins og oft áður um fallegar sveitir og alls staðar voru bændur og búalið í heyskap.  Við gengum eins og oft á sléttum stígum og það er bara ansi erfitt til lengdar.  En inn á milli komu fallegir skógarstígar og það var æði.  

Um hádegi fór heldur að hitna og sólin skein sem aldrei fyrr.  Lítrarnir hurfu úr vatnsflöskunni og svitinn rann af pílagrímanum.  Sem betur fer gátum við gengið í skugga trjánna að hluta til.  Heilsuðum fólki sem var á vegi okkar, allir gefa okkur falleg bros.  Þegar við vorum að komast upp lengstu og erfiðustu brekkuna , alveg uppgefnar og kaffiþurfi, blasti við okkur flottasta auglýsingaskilti "ever".  Kaffi, kökur, nefndu það bara, hátt uppi í litlu þorpi og bara 400m ofar - þeir metrar voru ansi drjúgir.  Kaffi og nýbökuð spönsk sneið af jólaköku - aldrei smakkast betur - þetta bjargaði deginum hjá mér.  Við komum til Lourenza og þá vorum við búnar að ganga 20,5km.  Við ákváðum að halda áfram um 8km til Mondodeo og það var mikið upp en mun léttara en ég átti von á.  Og þegar við ætluðum að skrá okkur inn á albergið urðum við fyrst að fara á lögreglustöðina og gera grein fyrir okkur.  Enn og aftur er fólk hissa að sjá íslenskan pílagríma - gerist greinilega ekki á hverjum degi.  Sól úti og sól í hjarta konunnar.  28km í dag og pílagríminn dálítið sólbrennd en sæl og glöð eins og fyrri daginn.  

"Líf án kærleika er eins og ávaxtatré sem hvorki ber blóm né aldin"

 


Góðvild á veginum

17. maí

Vaknaði snemma, ákvað að láta íbúann á hælnum eiga sig þar til ég kem í náttstað í kvöld.  Sólarlaust en hlýtt, Mario kvaddi mig - hann gengur heldur hraðar en ég laughing  Upp úr kl hálfátta hélt ég af stað með pokann minn á bakinu, staf í annarri hendinni en leiðsögubókina í hinni.  Létt ganga fyrstu kílómetrana en svo kom þetta upp og niður í þónokkra stund.  Ég sá engan pílagríma í langan tíma utan einu sinni í byrjun, svolítið öðruvísi en á Jakobsveginum.  

Ég hélt vel áfram og borðaði og drakk um leið og ég gekk, ekki að stoppa of oft.  Klukkan 11:55 að deginum kom ég til lítils sjávarbæjar sem heitir Luasca og kílómetrarnir tæpir 15. Ég var ein á göngunni í allan dag, frá hálf átta til hálf fimm, nema pílagrímarnir tveir í byrjun dags. Mest geng ég um sveitir og í gegnum lítil þorp.  Og oft eru veitingahús og verslanir lokaðar á daginn yfir heitasta tímann svo ef ég er nærri búð á kvöldin þá næ ég mér í nesti fyrir næsta dag.  

Núna er ég komin á afar fallegt hótel, Hótel el pinar, í æðislegu herbergi - 2ja manna á 22 evrur.  Þorpið eða bærinn heitir Villapedere og ég gekk rúma 28km í dag.  

"Það sem þú átt í vasanum er ekki mikilsvert - eingöngu það sem þú átt í hjartanu"

Sæli pílagríminn sem gengur einn þessa dagana.

Kær kveðja til ykkar allra.

 

18. maí

Sólarlaust þegar ég vakna.  Ætlaði að fá mér morgunmat um leið og ég yfirgaf bæinn en þá voru stafirnir mínir læstir inni í afgreiðslunni á hótelinu.  Ég fór því á veitingahúsið, fékk mér að borða og fór til baka á hótelið eftir það.  Fyrir utan herbergisdyrnar var annar stafurinn kominn en hinn sem ég hafði lagt saman (var sem sagt stuttur) var enn læstur inni og enginn við.  Jæja, einn stafur hefur dugað hingað til svo ég skrifaði bréf til fólksins á hótelinu að ef einhver frá þeim ætti leið um La Caridad þar sem ég mun gista næst yrði ég þakklát ef sá hinn sami henti stafnum inn á albergið.  

Mér gekk vel að ganga í dag og ég las leiðsögubókina mína algerlega út í gegn alla leiðina - þetta er það sem við íslendingar gerum svo lítið af, lesum ekki nógu vel leiðbeiningar og þá lendum við í tómu tjóni.  Mér gekk sem sagt mjög vel, það var fallegt veður og ég var ein allan daginn allt þar til ég kom til La Caridad og þá var ég fyrsti pílagríminn í hús en svo fóru þeir að koma inn, einn og einn í einu.  Ég skrapp í búðina til að versla mér svolítið að borða og þegar ég kom til baka þá lá hinn stafurinn minn á rúminu mínu - ótrúlegt hvað fólk er hjálpsamt hér á veginum.  

La Caridad er á milli Cadavedo og Ribadeo.  Aðalfréttin í dag:  íbúinn á fætinum mínum er að gefast upp.  Ég fann ekkert til í dag og þannig held ég að Hvítárbakkaþrjóskan mín muni sigra að lokum.  Kílómetrarnir í dag hjá mér urðu tæpir nítján, léttur dagur, ekki mikið um hækkanir og ég ákvað að taka stuttan dag, fallegt veður og margir litlir bæir og þorp sem ég fór í gegnum.  Heyskapur er byrjaður um allt og stór og falleg kartöflugrös brostu við mér.  Það er eitt sem ég á bágt með að venjast hér á Spáni þegar ég er að ganga um veginn og það eru geltandi hundarnir við húsin sem ég geng framhjá.  Þeir verða alveg brjálaðir, stórir og smáir, en sem betur fer eru þeir annaðhvort bundnir eða innan girðingar - svona er Spánn í dag.  

"Láttu hvorki fólk né atvik svipta þig kjarki og lífskrafti"

Rúnan sæl á veginum, orðin svolítið sólbrennd en kát og glöð.  Kær kveðja heim. 


Konan er netsambandslaus

Hér koma smá fréttir af konunni á veginum, en hún hefur undanfarna daga verið netsambandslaus.  Það er allt í góðu hjá henni, veður gott og hún hefur gengið með konu frá Hollandi.  Þær eru núna í albergi í bæ sem er 7km lengra en Ribadeo svo það styttist aldeilis í annan endann hjá henni.  Helena er hætt göngu, getur ekki meir, en mamma hitti hana í dag og gat kvatt hana.  Það var gott í henni hljóðið og hún sér jafnvel fram á að klára gönguna fyrr og getur þá tekið fleiri daga í hvíld í Santiago de Compostella.

Dóttirin


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband