Allt gengur vel

16. maí

Elsta barnabarnið mitt Gunnhildur Erla 24 ára í dag - amma sendir henni hlýjar kveðjur frá Spáni.  Svo er hér smá saga um blöðruna mína góðu sem ég kalla orðið "íbúa í skónum".  Nú er þetta orðið þannig að það er galopin hurð hjá blöðrunni, rauður fallegur litur inni, gullaholurnar mínar sem ég gerði hafa greinilega ekki verið nógu góðar fyrir hana.  Það er borið krem og nuddað og hún er klædd í brún og hvít föt sæl í sínu húsi.  Konan sem er að kljást við þessa blöðru er ein um það, engin samúð frá íbúanum.  Svo er að ákveða á morgnana áður en haldið er í daginn - á að taka eina töflu eða tvær, 200mg eða 400mg?

Enn var okkur gefið fallegt veður, hlýtt en sólarlaust, og við gengum á stuttermabolum eins og áður.  Helena var ekki hress, þreytt og komin með fleiri blöðrur.  Dagurinn byrjaði á því að við urðum að ganga meira en 600m upp og um tvöleytið ákvað Helena að fara ekki lengra.  Ég var meira og minna alein það sem eftir lifði dagsins, gekk mikið í skógi, og fannst þetta pínu yfirþyrmandi á stundum.  Kannski var það bara það að ég var allt í einu orðin alveg ein, enginn á undan og enginn á eftir, það tekur tíma að venjast því.  Þá talaði ég við "ferðafélagann minn" sem alltaf er með mér og hlustar alltaf.  Eftir það samtal leið mér betur og ég söng fyrir skóginn og fuglana og held bara að þeir hafi tekið undir innocent  

Ég gekk nærri sjónum um tíma og alltaf er hann jafn fallegur, blár, sléttur svo langt sem augað eygir.  Síðustu kílómetrana, sem oftast eru nú þeir lengstu, gekk ég á steyptum vegi og í albergið kom ég rétt fyrir kl sex, þreytt og sveitt en yfir mig fegin.  Það voru rúmir 30km að baki, 52515 skref.  Ja hérna hér.  Verst að allar kaloríurnar sem ég brenni koma alltaf aftur á kvöldin surprised  

Albergið sem ég og Mario (já við hittumst aftur) er í bænum Cadavedo.  Gott að gista hér, bara tvö herbergi og við höfum því sérherbergi bæði.  Enn er ég heppin.  Ég fór í rúmið upp úr níu eftir að við Mario höfðum borðað pílagrímamat á veitingastað.  Pílagríminn bara sáttur við að hafa tekist á við sjálfan sig í einverunni í dag.

Sendi ykkur hlýjar kveðjur og vona að allir hafi það sem best. 

Rúnan, hugsar heim í kvöld eins og alltaf.

"það er dýrt að lifa á þessari jörð - en það er innifalin ókeypis hringferð um sólina á hverju ári"


Cudillero

15. maí

Báðar pílagrímakonurnar dálítið þjáðar eftir blöðrur og eins eftir frekar órólega nótt - fólk að koma og fara í bítið klukkan 06:00.  En við ákváðum að sjá hve langt við kæmumst í dag og já, eftir að hafa gengið skynsamlega, þ.e. rólega, voru það rúmir 30km eftir daginn.  

Núna erum við á hóteli í Cudillero rétt hjá El Pito, tvær í herbergi. Kyrrð og ró, yndisleg gisting, kvöldmatur og morgunmatur 19 evrur - en nota bene, ekki með rúmfötum.  Fuglasöngur og falleg sveit umvefur okkur Helenu.  Gangan í dag var allt upp í 670m og svo niður og upp, svona er þetta mikið á hverjum degi á norðurleiðinni.  En ég var heppin, lítil sól, rigningin hékk yfir mestallan daginn en við gengum á stuttermabolum í allan dag.  

Mikill hluti leiðarinnar lá um skógarstíga og þið sem þekkið jarðveginn hér vitið hvernig hann verður þegar rignir, blautur og hættulegur á stígunum.  Við kunnum fótum okkar forráð og allt gekk vel.  Þegar líða tók á daginn var ég orðin ansi lúin, hafði meitt mig á öðru hnénu tveim dögum áður og nú fór ég að finna fyrir því.  En allt hafðist þetta nú, ég er búin að borða góðan mat, smávegis af rauðvíni með og svo er það bara kojan eða rúmið og klukkan er bara níu.

Hjartanskveðjur,

Rúna heldur áfram og áfram 


Ekkert stoppar pílagrímann frá Íslandi

12. maí

Á fætur kl 07:00.

Ágætt veður, sólarlaust.  Kl. 13:00 byrjaði að rigna þegar við sátum úti að borða.  Enn einn dagurinn þar sem við gengum mikið upp og niður - allt upp í 420m hæð og niður aftur, upp aftur!  Rigningin var góð, ekki mikil og enginn vindur laughing  Ponsjóið kom sér vel, fallegar sveitir og mér finnst hreint hér, þar sem ég hef komið.  Í dag gengum við 31km allt til bæjarins Sedraio.  Ég mæli nú ekkert sérstaklega með alberginu þar.  Pláss fyrir 14 manns og allir í einni kös - súrefnislaust um morguninn.  Við erum 11 sem sváfum þar, 7 karlar og 4 konur.  Ég fór í efri kojuna, ekki mikið um hrotur en það vantaði súrefni.

Mér líður þó vel og allt er í góðu.

Kveðja,

kát á veginum.

"Hamingjan felst ekki í hlutum - hún er í okkur sjálfum"

 

13. maí

Afmælisdagur Ingvars bróður míns.  Það eru 53 ár síðan hann drukknaði tvítugur að aldri, minnist hans í dag á göngunni.  

Við fórum út í daginn korteri fyrir átta, það var blautt en hlýtt.  Við ákváðum að fara í borgarferð og tókum leið út frá norðurleiðinni.  Við héldum áleiðis til borgarinnar Oviedo, það var ótrúlega erfitt, upp og niður, upp og niður og endalaust upp, upp, upp embarassed

Allt var þetta meira og minna á steyptri gönguleið og við vorum ótrúlega þreyttar eftir 20km þegar við ákváðum að taka strætó til borgarinnar.

Ég fékk gamla "vinkonu" í heimsókn, stærðarinnar blöðru utan á hælinn.  Ég stakk á henni í gærkvöldi, bar joð um allt en í morgun voru komnir litlir ættingjar hennar í heimsókn.  Og þá var bara stungið á ný, borið joð, plástrað og reynd að gleyma sársaukanum á göngunni.  

Héraðið í dag var fallegt, allt grænt, hús og þorp kúra í fjöllunum hér.  Þegar við komum til borgarinnar skoðuðum við dómkirkjuna og röltum um stræti og torg.

Mikið um ferðamenn og margt að gerast.  Við gistum í yndislegu albergi, El Salvador, og fengum tveggja manna herbergi - lúxus.  

Við vorum þreyttar þó við hefðum tekið strætó hluta leiðarinnar. Versluðum smá í kvöldmatinn, fengum okkur að borða og hittum í eldhúsinu þjóðverjann Georg sem er að fara erfiðari leiðina en Norte.  Hann var ekki með neina leiðsögubók né leiðsögn um svæðið svo ég lét hann hafa bókina mína og hann skar út úr henni upplýsingarnar um leiðina sem hann fer því ekki mun ég fara hana.  Við fórum í rúmið kl 21:00 og svifum sælar í draumalandið.

Kveðja,

Rúna, sátt og sæl þrátt fyrir blöðrur og upp og niður göngur.

"Þegar ég geng með þér finnst mér ég hafa blóm í hnappagatinu"

 

14. maí

Við sváfum út - til kl 8:00.  Sólarlaust, hlýtt og logn, 12 stiga hiti þegar við komum út.  Eftir morgunmatinn héldum við niður í bæ, fengum okkur kaffi og gúmmelaði og horfðum á götulífið.  Um eittleytið fengum við okkur dýrindis hádegisverð og ákváðum að vera svolítið góðar við okkur í dag.  Við horfðum á brúðkaup sem var í kirkju sem við gengum framhjá og biðum eftir að brúðhjónin kæmu út.  Mikil gleði og húllumhæ, lúðrablástur og sekkjapípur - gaman að upplifa þetta.  

Nú erum við komnar í bæinn Avieles og búnar að finna okkur neðri kojur í sal þar sem er pláss fyrir 48 manns.  Þvottur þveginn í þvottavél í fyrsta sinn í þessari ferð og settur í þurrkara - þvílíkur lúxus - gleðjist nú með mér.  Mér líður vel og veit að allt er í góðu hjá mínu fólki - þá er ég glöð.  Sit úti við albergið sem kostar 5 evrur, frídagurinn er liðinn svo nú er að standa sig.  Nú er albergið að fyllast af fólki - vona að ég sofi.  Ef það verða miklar hrotur þá tek ég bara Mozart á þetta.

"Við getum lært heilmikið af litunum:  sumir eru skærir, sumir fallegir, sumir leiðinlegir, sumir hafa skrítin nöfn og allir eru þeir mismunandi.  En þeir geta allir komist ágætlega fyrir í sama kassanum"

Rúna, rétt tæplega hálfnuð með gönguna sína.


11. maí

Sjötti göngudagurinn.  Á fætur rétt um 7, sólin að koma upp og fjöllin sem ég sé út um gluggann minn eru þakin gróðri og einstaka þokuslæða læðist um efstu toppa áður en sólin tekur yfir.  En í borðstofunni beið okkar dekkað borð með kræsingum.  Enn held ég áfram að lifa lúxuslífi, albergin öll til fyrirmyndar og ekki yfir neinu að kvarta þar.  Það væri vanþakklæti að þakka það ekki.  

Sólin skein í allan dag og skín enn þar sem ég sit úti léttklædd og hlusta á öldugjálfrið 20-30 metrum frá mér.  Nú er ég komin til Riba di Sella eftir rúmlega 29 km göngu, að mestu um sveitir, malarvegi og skóga.  Þetta var góður dagur, blómin og blómstrandi tré glöddu pílagrímann.  Kusurnar brúnu nutu sín í sólinni, kálfakrúttin fylgja þeim og næla sér í sopa annað slagið.  Í gær sá ég stærðarinnar naut gæla við elskuna sína.  Hann sleikti vanga hennar og háls á meðan hún nærði sig á grasi og lét sér fátt um finnast.  Yndisleg sjón sem ég hef aldrei séð áður.  

Útsýnið var fallegt yfir sjóinn og um hádegið fengum við okkur að borða í flæðarmálinu.  Og hvað gerist svo hjá þessum íslenska pílagríma um miðjan daginn?  Jú, hjá okkur Helenu stoppar þjóðverji, Martin.  Og þetta var sá sem bjargaði fyrri hluta flutningsins á hattinum mínum - ótrúlegt þetta líf.  Og nú gat ég þakkað fyrir mig í eigin persónu, svo þakklát og glöð.  

Núna erum við kominn í albergið, stórt og fallegt hvítt hús alveg við ströndina.  Þriggja manna herbergi með læstum skápum en við erum bara tvær.  Helena fór og dýfði fótunum í sjóinn, hún er himinlifandi að hafa sjóinn sem mér finnst svo sem ekkert merkilegt - hef sjóinn fyrir augum alla daga.  En ég nýt lífsins hér í sólinni endurnærð eftir gulrótina (sturtuna) og gott símtal sem ég fékk í gærkvöldi laughing

Fengum okkur að borða matseðil dagsins - baunasúpu ótrúlega góða.  Svo fékk ég salat og Helena fékk sér einhvern baunamat.  Svo var saltfiskur hjá Helenu og ég fékk nautakjöt.  Desertinn var súkkulaðikaka með rjóma hjá mér og Mousse hjá Helenu.  Eitt glas af bjór fékk að fljóta með sem og ein flaska af rauðvíni og allt kostaði þetta 15 evrur á mann!

Ég veit ekki hve oft ég hef talið upp að 60 undanfarna daga en hver brekka er nokkrum sinnum 60 og alveg magnað hvað þær eru margar.  Dagurinn á morgun verður töluvert lengri en dagurinn í dag.

Jæja elskurnar mínar, krúttin mín öll, ömmugull og bara allir.  Sendi ykkur hlýjar kveðjur og veit að þið gleðjist með mér.  Kossar og knús frá pílagrímanum sólbrennda.

"Fyrsta blóm jarðarinnar er brosið"

sáttur pílagrími

 


Fegurð og þakklæti

9. maí

Vaknaði kl 7, kíkti út - fallegur dagur.  Í gærkvöldi var komin ró í alla pílagríma í Alberginu kl 21 - Guði sé lof.  Við Helena lögðum í hann kl 8 og áttum von á frekar auðveldum degi.  En upp og niður og aftur upp - þannig gekk þetta á steyptum vegi allt til kl 13.  Vá hvað ég var fegin þá, malarvegur í bara þónokkuð langan tíma, endurnærandi fyrir fæturna og sálina.  Við keyptum okkur alveg dásamlegt gróft brauð í hádeginu og sú gamla drakk kók með (gerist ekki oft).

Leiðin í dag lá um undurfagra dali og hæðir og stöku sinnum sást hafið.  Falleg fjallasýn og bjölluhljómur frá búfénaði, kind gerði sér dælt við hrút, hann stangaði til baka, ekki alveg tilbúinn til nánari kynna.  Svo erum við að velta fyrir okkur hve einstök við erum mannfólkið!!!  

Í dag var gott gönguveður, ekki of mikil sól en hlýtt.  Komum á gististaðinn okkar í Buelna kl 15.  26 km að baki og ég í fínu standi.  Yndislegur gististaður, allt til alls, rúm, sængurfatnaður, handklæði, kvöldmatur og morgunmatur - 20 evrur.  Algjör lúxus.  16 rúm í herberginu, við vorum 4 konur og 2 karlar - so far, so good!  

Hef séð eldri íbúa og allir brosa út að eyrum og óska okkur góðrar ferðar.  Það yljar hjartanu.  Maðurinn sem tók á móti mér hér í alberginu og skrifaði mig inn var alveg undrandi því hann hafði aldrei hitt íslending fyrr og ég auðvitað naut athyglinnar í botn.  Eftir að við komum hingað í albergið hellirigndi, eins og hellt hefði verið úr fötu og ég alltaf jafn heppin - Guð hugsar um sína laughing 

Núna sit ég með Helene, við sötrum rauðvín og bíðum eftir kvöldmatnum.  Ég átti svo dásemdarstund í kvöldmatnum með pólverjum, lettum, þjóðverjum, japönum og svo náttúrulega við Helene - mikið hlegið og spjallað.  Í rúmið fór ég kl 21 - fallegur fuglasöngur, þyturinn í laufum trjánna, ylur frá sólinni - allt svo nærandi fyrir þreytta fætur.  Góður dagur að baki þó hann hafi verið svolítið erfiður þá líður mér vel og er alsæl og full af orku.

Þakka ykkur öllum sem hafið skrifað til mín fallegar kveðjur og óskir.  Þetta bjargar mér alveg og ég hugsa um þetta á hverju kvöldi hvað ég er heppin að hafa ykkur öll.  Þetta er minningarbókin mín og er mér mikils virði að geta lesið nöfnin ykkar, þó það sé ekki annað, það segir mér að ég er að gera eitthvað sem er svolítið skemmtilegt og aðrir hafa gaman af.  Og í lokin ætla ég að kveðja ykkur með þessum orðum:

"í þessum heimi er það ekki það sem við tökum okkur sem gerir okkur rík heldur það sem við gefum frá okkur"

Læt heyra frá mér eins fljótt og ég get - hafið það gott, sakna ykkar og elska ykkur.

Kveðja, 

alsæl kona búin að ganga rúmlega 100 kílómetra.

 

10. maí

Urðum að bíða til kl 8 með að fá morgunmatinn og vorum orðnar dálítið óþreygjufullar að komast af stað.  Korter fyrir 9 lögðum við í hann og enn einn dag er mér gefinn.  Fallegur, bjartur og ferðafélaginn sem ávallt er með mér umvefur mig fallegum dögum og góðu fólki.  Jafnvel þó fætur séu þreyttar þá gleymist það yfir svona gæfu sem mér er færð.  

Dagurinn í dag var algjörlega ótrúlegur og sá allra, allra fallegasti frá upphafi göngunnar.  Í fyrsta lagi gekk ég eiginlega allan daginn á malarvegum og skógarstígum.  Við fórum upp og niður, ég horfði yfir landið, hafið, fallegu bæina og þorpin. Við fengum okkur að borða í borg sem heitir Llanes, gengum í gegnum hana og út í fallegan lítinn bæ, Plaja de Poo.  Við gistum á algjöru lúxus albergi á heimili hjá konu sem býr ein.  Við fengum sérherbergi, sturtu, þvottavél, eldhús og bara nefna það - þá kemur það.  Og þetta kostar 10 evrur.  

Út um gluggann hjá mér blasa við tignarleg fjöll, dalir og litlu fallegu húsin allt um kring.  Ég er svo mikill lukkunnar pamfíll, fæturnir eru bara góðir, ein pínulítil blaðra, that´s all!  Við vorum komnar hingað kl 15 og erum búnar að eiga góða stund.  Ég horfi út um gluggann og þetta er aldeilis ótrúlegt.  Við fengum okkur göngutúr áðan að ströndinni Poo og hún er eins og algjört leyndarmál, bleikur/hvítur sandur, fagurgrænn sjórinn og klettar allt um kring í litlum vogi.  

Ég held áfram að upplifa þessa norðurleið - ákaflega þakklát yfir að geta það.  Ég fer snemma í rúmið í kvöld því það er langur dagur framundan á morgun ef allt fer eins og það á að fara.  Sólin skín, pílagríminn brosir, hugsar heim og munið að þetta er minningarbókin mín svo endilega gefið mér nöfnin ykkar í hana.

Í lokin er það þetta:

"vertu vingjarnlegur við fólkið á leið þinni á toppinn því þú átt eftir að hitta það aftur á leið þinni niður"

Kveðja,

sæl og sátt kona á norðurleiðinni, nýtur mikilla forréttinda.  


Fyrstu dagarnir!

5. maí

Ég tók leigubíl frá flugvellinum í Santander því þar var enginn til að sækja mig.  Ekið var með mig til Guemes þar sem gangan á að hefjast næsta dag.  Þegar þangað kom tóku 3 karlmenn á móti mér, presturinn Ernesto og starfsmenn hans.  Miklir fagnaðarfundir og svo fór ég bara beint að sofa og sá svefn var langþráður eftir vöku frá kl 3 nóttina áður.  Þreyttur en mjög feginn pílagrími svaf einn í litlu húsi þessa nótt - algjör lúxus.

"Moldin logar af lífi - loftið er fullt af söng"

 

kveðja,

pílagríminn fullur tilhlökkunar

 

6. maí

 

Ég svaf vel, til 6:45.  Græjaði dótið og er ákveðin að halda af stað í dag þó að starfsfólkið hér vilji að ég hvílist.  Morgunmaturinn góður og Ernesto var himinlifandi yfir passíusálmunum sem ég gaf honum og kveðjuna frá biskupinum á Íslandi.  Fór af stað kl 8:30 - og gleymdi hattinum mínum :(  Hatturinn er merktur með pinnum frá öllum þeim löndum sem ég hef gengið á svo það var sárt að hann skyldi verða eftir í Guemes.  

Ég fór styttri leiðina til Santander - 15 kílómetra en leiðin lengdist svo um 1 km því það var fjara og ferjan sem ég ætlaði að taka til Santander komst ekki að bryggju svo ég varð að ganga 1 km að henni.  Sólin fór að skína kl: 10:30 og ég hafði gengið ein þessa leið.  Gott var að setjast niður í ferjunni og í Santander ákvað ég svo að taka lestina út úr borginni - þetta var allt svo yfirþyrmandi og ég hélt til Santa Crus og kom þangað kl 14.  Sól og heitt en ég er glöð.  

Ég fann Albergi alein - jibbý!!  Þetta Albergi reka hjón og þar eru frjáls framlög.  Á heimilinu eru þrjár kisulórur, rúm fyrir 14 pílagríma en þessa nótt gistum við 2 þarna, ég og þýsk stúlka sem heitir Katarina.  Sturtan var æði, þvotturinn þveginn og blakti í sólinni.  Við fengum rosalega fínan kvöldverð, alveg dekrað við okkur tvær og húsbóndinn sérlagaði marokkóskt tek handa okkur.  Santa Crus er ekki stór bær en fólkið er vingjarnlegt og gerir allt til að aðstoða pílagríma.  Ég hlakka til að leggja höfuðið á koddann og svífa inn í draumalandið.

"Það er hvorki hættulegt né skammarlegt að detta - en að liggja kyrr er hvorutveggja"

 

kveðja

konan á veginum

 

7. maí

 

Fór á fætur kl 8 eftir endurnærandi svefn.  Morgunmaturinn var "ready on the table".  Hélt af stað rúmlega 9 og gekk meðfram járnbrautarteinum sem vísuðu leiðina.  Gular örvar í byrjun en á tímabili sáust þær ekki.  Gekk með Katarinu frá Þýskalandi.  Við ákváðum að stelast yfir 70m langa brú sem aðeins járbrautarlestar mega fara - brutum lögin en allt gekk þó vel!!  Svo fóru gulu örvarnar að sjást aftur og það er svo gott að fylgja þeim.  Þetta var fallegur og heitur dagur - 24 stiga hiti þegar mest var.  

Leiðin í dag lá um litla bæji, þorp og sveitir og núna er ég stödd í Santillana del Mar.  23km að baki þennan daginn.  Gisti í Albergi Jesus Otero og þar kostar 6 evrur að vera.  Smelli mér í efri koju eftir kvöldmatinn.  Þetta er 16 manna albergi, þétt er raðað og við Katarina vorum þær síðustu sem komust að þarna.  

Hér í Santillana er fallegt, steini lagðar þröngar götur og mikið um ferðamenn.  Paul Sartre sagði þetta fallegasta þorp á Spáni.  Fyrir rúmum 20 árum gengu hér um strætin kýr - tímarnir breytast og mennirnir með.  Í dag gekk ég með fallega akra allt um kring, blóm og tré.  Fuglarnir syngja, hanar gala og hundar gelta og urra.  Gekk á steyptum vegi alla leið.  Mér líður vel, drekk heilu lítrana af vatni en enginn bjór - mjög heilsusamleg.  Og mittistaskan sem mér var gefin áður en ég fór kemur sér vel - vatnsflaskan alltaf við hendina og myndavélin líka.  Sendi gefandanum hlýjar þakklætiskveðjur.  Í kvöld ætla ég að borða með konu frá Tékklandi sem er búsett í Kanada, er 9 árum yngri en ég og heitir Helena.

"Byrjaðu.     Hálfnað er verk þá hafið er - þá er helmingurinn eftir.      Byrjaðu aftur og þú hefur lokið verkinu"

 

Kveðja, 

sæl kona á veginum sem vekur athygli fyrir að vera íslendingur.

 

8. maí

Var vakin kl 5 af fólki sem var víst eitthvað að flýta sér og þá fór allt af stað.  Svaf í efri koju því kallarnir ungir og gamlir tóku þær neðri.  Nóttin ekki sérlega róleg en á fætur fór ég kl 6:30 en þá var farið að birta - skýjað en hlýtt.  Ég fór af stað með Helenu kl 7 og í dag gengum við mikið upp og niður hæðir og vegurinn er alltaf steyptur - hrikalega erfitt.  

Við héldum áleiðis um fallegar sveitir og bæji, allt í blóma og gott að sjá sjóinn öðru hvoru.  Fengum okkur að borða á veitingastað við ströndina, horfðum á sjóinn, yndislegt - hlýtt en rok.  Sáum fallegar kirkjur í Cobreces í rauðum og bláum litum - frekar óvenjulegt.  Upp úr kl 13 fór sólin að skína og þá vorum við búnar að ákveða að gista ekki í Comillas heldur halda áfram til San Vicente.  

Maður minn það var erfitt í lokin - 33km og 55.144 skref - úff úff.  Hitinn var mikill og vatnið rann niður.  En hingað er ég komin, þreytt, sólbrennd og yfir mig glöð.  Og fyrir litlu ungana mína heima:  amma sá margar geitur, kiðlinga, pínulítinn hest (ekki folald - örugglega dverghestur), fiðrildi, kýr, kindur, hesta, lamadýr og fullt af kisum og hundum.

Og svona í lokin á þessum langa og erfiða degi - þá er ég búin að fá hattinn minn góða alla leiðina frá Guemas þar sem ég gisti fyrstu nóttina.  Hann ferðaðist með pílagrími frá Guemes til Santa Crus.  Þaðan kom hann á mótorhjóli með hliðarvagni sem eigandinn í alberginu í Santa Crus ók.  Konan í alberginu þar, vildi fyrir alla muni koma hattinum til mín og talaði við Ernesto í Guemes, hann fann pílagríma sem tók hattinn minn góða, kom með hann í albergið í Santa Crus og þegar ég fékk hattinn þá hafði bæst við einn pinni með merki þeirra í Santa Crus.  Svona eru pílagrímar elskulegir og hjálpsamir.

"Þeir sem hleypa sólskini inn í líf annarra geta ekki haldið því frá sjálfum sér"

 

kveðja

konan hamingjusöm með hattinn sinn

 

 


Komin til Spánar

Ég skrifa hér fyrir hönd mömmu minnar en hún er komin til bæjarins Guemes á Spáni þar sem hún lauk göngunni sinni árið 2014 vegna veikindar móður sinnar.  Á morgun hefur hún gönguna sína að nýju og lætur án efa vita af sér um leið og hún kemst í netsamband.  Ekki veit ég hversu langt hún gengur á morgun - það verður að minnsta kosti spennandi að fylgjast hér með.

Kær kveðja

Særún (dóttirin)


Hálfnað ef verk þá hafið er.

Fluginu að heiman seinkaði um 35.mín en allt gekk vel á leiðinni. Á Gatwick sá ég engan taxidriver og ekki neita ég því að stress stuðullinn fór ansi hátt. En hann birtist með fullt af nöfnum - mín öll. Allt gekk vel,  sól og 21 gráðu hiti úti. Nú er ég komin komin á næsta flugvöll   og er salla róleg. Læt vita af mér við tækifæri, en ég er ekki alveg að trúa þessu. Njótið lífsins og saknið mín pínu þið sem standið mér nærri.

Hjartans kveðjur til ykkar allra. 

Rúna pílagrimi 


Hvað skal hafa með í farteskinu og hvað ekki?????

Jæja, nú sit ég hér heima og fyrir framan mig er hrúga af fötum, alls konar dóti og bakpoki sem á að innihalda það sem ég þarf á göngunni minni frá Guemes til Santiago de Compostela. 

Nú verð ég að vanda mig og reyna mitt besta til þess að pokinn minn verði sem léttastur. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr því.

Ég flýg til Gatwick nk. fimmtudag 5 maí og tek leigubíl þaðan yfir á Stansted. Þaðan flýg ég til Santander á Spáni og þar bíður mín vonandi bíll og bílstjóri frá gistiheimilinu í Guemes þar sem ég lauk göngunni minni fyrir einu og hálfu ári. Þar er meiningin að ég byrji að ganga daginn eftir - er orðin spennt, full eftirvæntingar en líka kvíðin. 

Ég fer með góðar óskir í hjartanu frá fólkinu mínu og góðum vinum. Það hjálpar mér að taka einn dag í einu og vonandi fæ ég tækifæri til þess að setja inn færslur hér og sjá hverjir eru að fylgjast með mér, svo ef þið lesið bloggið mitt þegar það kemur hér inn, þá endilega setjið nafnið ykkar inn, það gladdi mig ósegjanlega mikið þegar ég gekk Jakobsveginn að skoða bloggið mitt að kvöldi og hafa ykkur þar með. 

Ég veit að það er ekki nærri eins góð nettenging á Norðurleiðinni en ég mun gera mitt besta til þess að setja inn hér það sem á daga mína drífur - þetta verður dagbókin mín.

Hlakka til að takast á við "Dag í senn, eitt andartak í einu" og ferðafélaginn minn góði mun vera mér við hlið og allt um kring.

Þar til næst - sjáumst vonandi hér sem fyrst.

"Nýttu sem best það sem er á þínu valdi, taktu öðru bara eins og það kemur fyrir".

Rúna - telur niður dagana.

 


Fallegar hugleiðingar - gott að hafa þær í farteskinu þann 5. maí.

 

 

Blessed are you pilgrim, if you find that the way you open your eyes to what is not seen.

Blessed are you pilgrim, when you contemplate the road and discover full names and sunrises.

Blessed are you pilgrim, because you have discovered that the true path begins when it ends.

Blessed are you pilgrim, if you find a step back to help another worth a hundred forward without looking at you.

Blessed are you pilgrim, when you lack words to thank all that surprises you at every turn of the road.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband